Af gefnu tilefni hefur farið fram ítarleg skoðun á framkvæmd Íslandsmóts kjölbáta 2019. Rýnt hefur verið í lög, reglugerðir og gögn er málið varða og leitað álits, m.a. hjá ÍSÍ. Niðurstaðan er sú að ekkert gefur tilefni til annars en að líta svo á að Íslandsmótið hafi farið fram og, í samræmi við verðlaunaafhendingu í lok mótsins, sé Íslandsmeistari í siglingum kjölbáta árið 2019 áhöfnin á Bestu. Silfurverðlaunin hlýtur Sigurvon og Dögun hneppir bronsið.

Vegna afar óvenjulegra veðurskilyrða var framkvæmd mótsins erfið. Samkvæmt tilkynningu um keppni var stefnt að því að sigla fimm til níu umferðir. Á fimmtudagskvöldi var keppni ræst en svo blásin af þegar bátar höfðu verið hreyfingarlausir í logni um nokkurt skeið. Síðdegis á föstudegi voru sigldar tvær umferðir. Talsvert bætti í vind þegar leið á og fór svo að nokkrir bátar urðu fyrir tjóni. Á einum skemmdist mastur en a.m.k. tveir bátar  rifu segl. Ekkert var siglt á laugardegi vegna veðurs. Reynt var að ræsa keppni á sunnudegi, sem var varadagur, þegar vind lægði, en svo blés aftur upp. Ekki tókst betur en svo að keppnisstjórabátur dró upp akkeri og stefndi hraðbyri upp í fjöru og því ljóst að ekki yrði siglt þá heldur. Samvæmt þessu tókst einungis að klára tvær heilar umferðir.

Eftirfarandi má lesa í tilkynningu um keppni:
„6.2        8. ágúst, varadagur verður nýttur ef ekki hafa náðst 5 umferðir. […] Sigldar verða nægilega margar umferðir til að ná í heildina 5 umferðum. […]“
„6.3        Sigldar verða a.m.k 5 umferðir eftir því sem veður leyfir.“ 
„6.4        Keppni verður ekki ræst ef vindur er undir 2 m/s eða yfir 10 m/s, samkvæmt mælingu keppnisstjórnar.“

Við eðlilegar kringumstæður hefði varadagur dugað til að ljúka þeim fjölda umferða sem stefnt var að og reynt var til hins ýtrasta að nýta varadaginn. Það tókst þó ekki. Ljóst er að stefnt var að fimm umferðum en fyrirvari er í lið 6.3 um að það sé háð því sem veður leyfir

  • Í lögum og reglum SÍL er hvergi tilgreint að sigla þurfi lágmarksfjölda umferða til að hægt sé að krýna Íslandsmeistara.
  • Í tilkynningu um keppni er hvergi tilgreint að ekki verði veittur Íslandsmeistaratitill nema sigldur verði tiltekinn fjöldi umferða.

Því hefur verið haldið fram að fá þurfi ÍSÍ til að úrskurða um lögmæti mótsins. Í regluverki SÍL og ÍSÍ er ekkert sem heimilar eða veitir ÍSÍ lögsögu til að úrskurða um lögmæti mótsins. Því er litið svo á að málinu sé lokið af hálfu SÍL. Telji einhver að kæra þurfi málið er bent á Dómstól ÍSÍ en þá er jafnframt bent á að kærufrestur er „ein vika frá því að atvik það, sem kært er bar við...".