Talsvert hefur verið rætt um kynferðislegt áreiti og ofbeldi á undanförnum dögum og af því tilefni er rétt að benda það góða starf sem ÍSÍ hefur unnið í baráttunni gegn þessum ófögnuði. Meðal annars hefur verið gefinn út bæklingurinn Kynferðislegt ofbeldi í íþróttum og hvetjum við alla þjálfara, stjórnendur og sjálfboðaliða í íþróttastarfi til að lesa þennan bækling. Markmið með útgáfu bæklingsins er m.a. að auka meðvitund íþróttafélaga um að kynferðislegt ofbeldi getur átt sér stað á þeim vettvangi eins og öðrum, hvetja til umræðu, fræða þá sem starfa innan íþróttahreyfingarinnar um hvað geti talist kynferðislega misnotkun og hvaða lagaskilyrði gilda í þessu samhengi. Einnig hefur ÍSÍ gefið út siðareglur og hegðunarviðmið sem íþróttafélög geta notað sem viðmið við gerð eigin viðmiða og reglna.

Gott er að muna að það er alltaf hægt að fá samband við aðila sem vita hvernig best er að taka á þessum málum og því þurfum við ekki að finna upp hjólið sjálf. Þetta er því miður ekki nýtt vandamál en nú er verið að rjúfa þagnarhuluna sem hefur umlukið þessi mál og það er hlutverk okkar allra að uppræta þetta ofbeldi.

Síðast en ekki síst skal benda á að ef grunur leikur á kynferðislegu ofbeldi eða einhverjar spurningar vakna skal hafa samband við Barnavernd í því sveitarfélagi þar sem brotið er framið ef um barn er að ræða og tilkynna í nafni félagsins. Ef um fullorðinn einstakling er að ræða skal hringt í lögreglu í síma 112.