Nú um helgina var haldin jólagleði og uppskeruhátið SÍL fyrir árið 2016. Að venju var veittur fjöldi verðlauna. Þau sem hlutu viðurkenningu í ár eru eftirfarandi:
Siglingakona ársins: Hulda Lilja Hannesdóttir, en hún hefur verið einn öflugasti siglari landsins undanfarin ár. Hulda keppir á Laser Radial-kænu, en í þeim flokki keppa bæði kynin án aðgreiningar og hefur hún unnið til fjölda verðlauna. Hún er nú við æfingar í Barcelona og tekur þátt í alþjóðlegum stigamótum þar. Siglingamaður ársins: Þorgeir Ólafsson, sem hefur þrátt fyrir ungan aldur náð miklum árangri í siglingaíþróttinni. Hann hefur nánast verið ósigrandi í Optimist-flokki undanfarin ár en hann var Íslandsmeistari 2013, 2014 og 2015. Þorgeir keppti á Norðurlandamóti unglinga í Optimist síðastliðið sumar en í beinu framhaldi af því móti keppti hann á Íslandsmótinu í kænusiglingum á Laser 4.7-kænu, sem er talsvert stærri og þyngri bátur en Optimist. Þorgeir vann glæsilegan sigur í sínum flokki með því að vinna allar 9 umferðirnar og landaði því sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli á Laser-kænu. Kayakkona ársins: Björg Kjartansdóttir. Björg sigraði allar keppnir sem hún tók þátt fyrir utan eina og fékk 460 stig af 500 mögulegum. Kayakmaður ársins: Sveinn Axel Sveinsson. Sveinn Axel tók þátt í öllum keppnum sumarsins og hafnaði aldrei neðar en í öðru sæti. Hann fékk einnig 460 stig af 500 mögulegum.
Fleiri viðurkenningar voru einnig veittar. Siglingaefni ársins var að þessu valin Hólmfríður Gunnarsdóttir. Á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því hún hóf siglingar hefur Hólmfríður þegar skipað sér í röð þeirra fremstu í sínum aldurshópi. Á Íslandsmeistaramótinu í ár ákvað hún í samráði við þjálfara sinn að keppa í A-flokki í Optimist og náði þar bronsverðlaunum í keppni á móti talsvert reyndari siglurum. Sjálfboðaliði ársins var valinn Arnar Freyr Jónsson úr Brokey. Ævintýrabikarinn hlutu hjónin Svanfríður Jónsdóttir og Kristófer Ólíversson á skútunni Hug og er það annað árið í röð sem þau hljóta þann heiður. Í fyrra hófu þau þátttöku í World ARC-keppninni ásamt 26 öðrum skútum. Að lokinni 26.000 sjómílna keppni umhverfis hnöttinn komu þau í mark, en það tókst aðeins 6 skútum að ljúka keppni og segir það talsvert um áræðni og dugnað hjónanna. Þau létu þó ekki staðar numið heldur sigldu áfram upp austurströnd Bandaríkjanna, meðfram Nýfundnalandi, tóku land á Grænlandi og í Reykjavík áður en þau héldu áfram til Skandinavíu.
Íslandsbikarinn var einnig afhentur, en í ár er það áhöfnin á Dögun sem hlaut þann heiður. Áhöfnina skipa þeir Magnús Waage, Magnús Arason og Þórarinn Stefánsson. Hér má svo sjá stöðuna í stigakeppninni að loknu sumri:
Opnunarmót | Faxaflóamót | Íslandsmót | Lokamót | Samtals | |
Dögun | 10 | 5 | 8 | 10 | 33 |
Sigurborg | 8 | 10 | 3 | 8 | 29 |
Besta | 10 | 5 | 15 | ||
Aquarius | 6 | 5 | 4 | 15 | |
Skegla | 7 | 7 | 14 | ||
Lilja | 6 | 4 | 3 | 13 | |
Íris | 6 | 6 | 12 | ||
Sigurvon | 7 | 2 | 3 | 12 | |
Ögrun | 5 | 1 | 2 | 8 | |
Ísmolinn | 8 | 8 | |||
Ásdís | 4 | 1 | 5 | ||
Þerna | 4 | 4 |