SÍL hefur hlotið 600.000 kr. styrkveitingu úr Afrekssjóði ÍSÍ vegna afreksverkefna ársins 2017.
Á þessu ári hefur SÍL tekið þátt í nokkrum erlendum verkefnum og enn eru nokkur eftir. Þessi verkefni felast m.a. í því að undirbúa þátttöku á HM í Árósum á næsta ári og stefnt er að því að eiga keppenda á Ólympíuleikunum 2020 í Tókýó. Verið er að vinna að því að efla afreksstarf sambandsins og er það m.a. þátttakandi í þróunarverkefni Alþjóða siglingarsambandsins sem nefnist "Emerging Nations Program". Styrkir sem þessir eru nauðsynlegir til að SÍL geti sent keppendur á erlend stórmót og þessi styrkur Afrekssjóðs ÍSÍ muni án efa efla sambandið enn frekar hvað varðar þátttöku í alþjóðlegu afreksstarfi.
Á myndinni eru Lilja Sigurðardóttir, formaður Afrekssjóðs ÍSÍ, og Jón Pétur Friðriksson, formaður SÍL, við undirritun samnings vegna styrksins.