Á jólagleði og uppskeruhátíð SÍL fyrir árið 2017 voru að venju veitt verðlaun þeim sem skarað hafa fram úr á árinu. Í ár eru það eftirfarandi sem hljóta verðlaun:

Siglingamaður ársins 2017

Björn Heiðar RúnarssonSiglingamaður ársins er Björn Heiðar Rúnarsson úr Nökkva, félagi siglingamanna á Akureyri. Björn hefur um langt áraskeið verið einn af öflugustu siglingamönnum landsins. Hann vann til verðlauna á öllum mótum ársins sem hann tók þátt í og varð meðal annars Íslandsmeistari í opnum flokki á Íslandsmótinu í kænusiglingum. Hann hefur áður hlotið þennan titil 2012 og 2013.

Siglingakona ársins 2017

Siglingakona ársins er Hulda Lilja Hannesdóttir úr Siglingafélagi Reykjavíkur – Brokey. Hulda hefur borið höfuð og herðar yfir aðra siglingamenn landsins um nokkurt skeið, en þetta er fimmta árið í röð sem hún hlýtur þennan heiður. Hulda, sem keppir á Laser Radial-kænu, gat ekki verið með á Íslandsmótinu þar sem hún var við keppni á undirbúningsmóti fyrir Heimsmeistaramótið í Árósum á næsta ári þar sem hún verður eini fulltrúi Íslands. Þá keppti hún einnig á Evrópumeistaramóti Laser Radial í Barcelona. Hulda býr nú í Árósum þar sem hún stundar nám og æfir og keppir með Egå sejlklub.

Siglingaefni ársins 2017

Siglingaefni ársins er Ísabella Sól Tryggvadóttir úr Nökkva, félagi siglingamanna á Akureyri. Ísabella sem hefur verið einn af sterkustu Optimist-siglurunum okkar síðastliðin ár en keppir nú á Laser 4.7. Hún lenti í öðru sæti í opnum flokki á Íslandsmótinu þar sem hún keppti m.a. við Björn Heiðar en þar réði reynslan úrslitum. Ísabella tók þátt í æfingabúðum í sumar í Gdansk, Póllandi, á vegum alþjóða siglingasambandsins, World Sailing. Þar æfði hún með mörgum af efnilegustu Laser-siglurum Evrópu og verður spennandi að sjá hana keppa við þá á komandi árum.

Kayakmaður ársins 2017

Kayakmaður ársins er Ólafur B. Einarsson.

Kayakkona ársins 2017

Kayakkona ársins er Unnur Eir Arnardóttir.

Kayakklúbburinn stendur árlega fyrir nokkrum skemmtilegum keppnum fyrir félagsmenn sína og samanlagður árangur sker úr um hverjr verða útnefndir kayakmaður ársins og kayakkona ársins, þó kemur fyrir að menn séu útnefndir vegna sérstakra afreka eins og að róa einir síns liðs hringinn í kringum landið. Í ár fóru fram fjórar keppnir, Reykjavíkurbikarinn, Spretturinn, Hálfmaraþon og Bessastaðabikarinn.

Reykjavíkurbikarinn er haldinn á vorhátíð klúbbsins, venjulega í byrjun maí, en þá hittast félagsmenn í aðstöðinni við Geldinganes og keppa, grilla, spjalla og fá þyrlu Landhelgisgæslunnar til að taka með sér björgunaræfingar. Spretturinn er tiltölulega nýtilkominn, en þá er keppt í stuttri vegalengd þar sem allir keppendur eru á sams konar bátum og með sams konar árar. Þessi keppni er einstaklega skemmtileg áhorfs og oft handagangur í öskjunni. Hálfmaraþonið er keppni þar sem róið er milli Nauthólsvíkur og aðstöðu klúbbsins í Geldinganesi, en þar reynir virkilega á úthald og undirbúning. Keppendur fá 5 mínútna hlé út á Gróttu, geta þá safnað smá kröftum og innbyrt einhverja orku. Bessastaðabikarinn þetta árið var öðruvísi en venjulega og ákveðið var að róa frá Skógtjörn og inn í Hafnafjarðarhöfn, en áður var róið frá Skógtjörn og norður fyrir Álftanesið og það nokkurn veginn hringað inn í Lambhúsatjörn og land tekið við Bessastaði. Kayakklúbburinn Sviði á Álftanesi sem hefur haldið utan um Bessastaðabikarinn undanfarin ár var í samstarfi við Þyt í Hafnarfirði með þessa nýju leið og verður vonandi framhald á því.

Þetta árið urðu hlutskörpust Unnur Eir Arnardóttir í kvennaflokki með 300 stig og Ólafur B. Einarsson í karlaflokki með 380 stig en alls voru 400 stig í boði fyrir hvern keppanda

Unnur Eir Arnardóttir