Í ljósi umræðunnar um #metoo
- Details
Talsvert hefur verið rætt um kynferðislegt áreiti og ofbeldi á undanförnum dögum og af því tilefni er rétt að benda það góða starf sem ÍSÍ hefur unnið í baráttunni gegn þessum ófögnuði. Meðal annars hefur verið gefinn út bæklingurinn Kynferðislegt ofbeldi í íþróttum og hvetjum við alla þjálfara, stjórnendur og sjálfboðaliða í íþróttastarfi til að lesa þennan bækling. Markmið með útgáfu bæklingsins er m.a. að auka meðvitund íþróttafélaga um að kynferðislegt ofbeldi getur átt sér stað á þeim vettvangi eins og öðrum, hvetja til umræðu, fræða þá sem starfa innan íþróttahreyfingarinnar um hvað geti talist kynferðislega misnotkun og hvaða lagaskilyrði gilda í þessu samhengi. Einnig hefur ÍSÍ gefið út siðareglur og hegðunarviðmið sem íþróttafélög geta notað sem viðmið við gerð eigin viðmiða og reglna.
Gott er að muna að það er alltaf hægt að fá samband við aðila sem vita hvernig best er að taka á þessum málum og því þurfum við ekki að finna upp hjólið sjálf. Þetta er því miður ekki nýtt vandamál en nú er verið að rjúfa þagnarhuluna sem hefur umlukið þessi mál og það er hlutverk okkar allra að uppræta þetta ofbeldi.
Síðast en ekki síst skal benda á að ef grunur leikur á kynferðislegu ofbeldi eða einhverjar spurningar vakna skal hafa samband við Barnavernd í því sveitarfélagi þar sem brotið er framið ef um barn er að ræða og tilkynna í nafni félagsins. Ef um fullorðinn einstakling er að ræða skal hringt í lögreglu í síma 112.
Jólagleði og uppskeruhátíð 2017
- Details
Jólagleði og uppskeruhátíð SÍL verður haldin í hádeginu laugardaginn 9. desember í Cafe Easy, Íþróttamiðstöðinni Laugardal. Í boði er jólahlaðborð á aðeins 2.500 kr.
Veitt verða verðlaun þeim sem hafa skarað framúr á árinu. Að venju verða afhent verðlaun þeim sem hafa skarað framúr á árinu. Einnig verður Íslandsbikarinn afhentur. Kjörið tækifæri fyrir siglinga- og kayakfólk til að koma saman og eiga notalega stund á aðventunni. Hægt er að tilkynna þátttöku á facebook-síðu SÍL, en það hjálpar okkur að áætla fjölda matargesta. Allir hjartanlega velkomnir.
Úlfur í siðanefnd World Sailing
- Details
Úlfur H. Hróbjartsson var á nýafstöðnum aðalfundi Alþjóða siglingasambandsins (e. World Sailing, WS) tilnefndur í siðanefnd sambandsins. Úlfur, sem var formaður SÍL 2007-2016, hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum á vettvangi siglingaíþróttarinnar, m.a. situr hann þróunar- og svæðisnefnd WS (Development and Regions Committee) og á síðasta ári var hann kjörinn á aðalfundi Norræna siglingasambandsins til að sitja sem annar af tveimur fulltrúum þess í ráði World Sailing (e. WS Council). Ljóst er að Úlfur hefur áunnið sér mikið traust á þessum vettvangi og er mikill ávinningur fyrir okkur að eiga svo öflugan fulltrúa sem hann er. Við óskum honum til hamingju með tilnefninguna.
SÍL fær styrk úr Afrekssjóði ÍSÍ
- Details
SÍL hefur hlotið 600.000 kr. styrkveitingu úr Afrekssjóði ÍSÍ vegna afreksverkefna ársins 2017.
Á þessu ári hefur SÍL tekið þátt í nokkrum erlendum verkefnum og enn eru nokkur eftir. Þessi verkefni felast m.a. í því að undirbúa þátttöku á HM í Árósum á næsta ári og stefnt er að því að eiga keppenda á Ólympíuleikunum 2020 í Tókýó. Verið er að vinna að því að efla afreksstarf sambandsins og er það m.a. þátttakandi í þróunarverkefni Alþjóða siglingarsambandsins sem nefnist "Emerging Nations Program". Styrkir sem þessir eru nauðsynlegir til að SÍL geti sent keppendur á erlend stórmót og þessi styrkur Afrekssjóðs ÍSÍ muni án efa efla sambandið enn frekar hvað varðar þátttöku í alþjóðlegu afreksstarfi.
Á myndinni eru Lilja Sigurðardóttir, formaður Afrekssjóðs ÍSÍ, og Jón Pétur Friðriksson, formaður SÍL, við undirritun samnings vegna styrksins.
Page 41 of 55