Á siglingaþingi sem haldið var í febrúar síðastliðinn voru kynnt ný kappsiglingafyrirmæli SÍL. Nefnd sem skipuð var Úlfi Hróbjartssyni, þáverandi formanni, Birgi Ara Hilmarssyni, Friðriki Hafberg og Jóni Pétri Friðrikssyni, núverandi formanni, sá um að vinna breytingar og uppfærslur á kappsiglingafyrirmælunum. Nokkrar ástæður voru þessum breytingum. Fella þurfti út úreltar vísanir í reglugerðir World Sailing, sumt var umorðað sem ekki hafði verið nógu skýrt og eins þótti rétt að hafa samskonar form á fyrirmælunum og tíðkast í nágrannalöndum okkar. Formenn siglingafélaganna höfðu fengið drög til kynningar fyrir þingið og því voru ekki gerðar nema minniháttar athugasemdir á þinginu. Þessar athugasemdir fóru þá aftur til nefndarinnar sem lauk svo fljótlega við endanlega útgáfu kappsiglingafyrirmælanna og hafa þau verið birt á vefsíðu SÍL.
Nokkuð hefur borið á því á undanförnum árum að tilkynningar um keppni hafi birst seint og jafnvel ekki fyrr en örfáum dögum fyrir mót. Því þótti rétt að setja inn ákvæði þar sem tekið er á þessu og hljóðar 1. mgr. 3. gr. svo: „Tilkynning um keppni skal berast SÍL eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir keppni.“ Þetta ætti að gefa siglingafélögunum og einkum og sérílagi keppendum góðan frest til að undirbúa þátttöku í keppni.