Nú í júní hefur verið boðið upp á siglinganámskeið fyrir börn og unglinga og er námskeiðið haldið á Eskifirði. Þetta er í fyrsta sinn sem boðið er upp á slíkt námskeið í Fjarðabyggð og kennt er á Optimist báta, en Optimist er vinsælasti og útbreiddasti seglbátur heims og tilvalinn fyrir þá sem eru að byrja að læra að sigla seglbátum. Optimist er góður bátur fyrir börn og unglinga upp að 15 ára aldri en þegar menn stækka er gott að færa sig yfir á stærri báta. Námskeiðin eru opin fyrir alla krakka á aldrinum 7-15 ára.
Bátarnir sem notaðir eru á námskeiðinu voru keyptir af Siglingaklúbbnum Nökkva á Akureyri en Rúnar Þór Björnsson formaður Nökkva hefur verið mjög hjálplegur við að koma þessu framtaki af stað. Einnig kom þjálfari á vegum Nökkva til Eskifjarðar í þrjá daga í byrjun júlí til að aðstoða við að koma krökkunum af stað.
Einu námskeiði er þegar lokið en það var 13. - 17. júní. Þar voru 16 krakkar að sigla í smábátahöfninni á Eskifirði og skemmtu sér konunglega og stóðu sig afar vel. Einnig gátu krakkarnir fengið að sigla kæjökum sem kæjakklúbburinn Kæj á Neskaupstað lánaði.
Nú stendur yfir annað námskeið og þessa vikuna er verið að sigla í Mjóeyrarvíkinni innan við Randulffs sjóhús á Eskifirði. Það er því nóg að gera í sjósporti á Eskifirði þessa dagana og til stendur að stofna formlegan siglingaklúbb með haustinu ef áhugi er fyrir hendi.
Þessir litlu seglbátar setja svo sannarlega svip sinn á bæinn og það er tignarlegt að sjá bátana skríða um fjörðinn í góðum byr á fallegum sumardegi.

(P.S. Myndirnar tók Guðmann Þorvaldsson)