Kayakkona ársins 2012:
Þóra Atladóttir: Þóra er Íslandsmeistari kvenna í sjókayak 2012. Hún sigraði fjölmennustu keppni sumarsins, Reykjavíkurbikarinn, og var eina konan sem tók þátt í Hvammsvíkurmaraþoninu. Þóra var einnig hársbreidd frá því að taka tililinn í fyrra, en missti af fyrsta sætinu í hlutkesti eftir keppnir sumarsins. Þóra er feykiöflugur ræðari og mjög sjáanleg í öllu klúbbstarfi, sundlaug, félagsróðrum, æfingaróðrum, ferðum o.s.frv. Alltaf tilbúin að miðla reynslu og aðstoða.
Kayakmaður ársins 2012:
Ólafur Einarsson: Ólafur er Íslandsmeistari karla í sjókayak 2012. Hann sigraði þær sjókayakkeppnir sem boðið var upp á 2012 örugglega og er vel að titlinum kominn. Ólafur er Íslandsmeistari fjögurra af síðustu fimm árum og þar kemst enginn með tærnar sem hann hefur hælana. Ólafur er einnig formaður ungliða- og fræðslunefndar Kayakklúbbsins og hefur undanfarið ár skipulagt æfingahóp sem stundar reglulega róður á brimskíðum sem er skemmtileg viðbót við hinn hefðbundna sjókayakróður.
Siglingakona ársins 2012
Lilja Gísladóttir Nökkva: Keppnin í ár var hörð á milli Lilju og Huldu í Brokey. Eigi að síður hafði Lilja betur í keppnum sumarsins og hlýtur því titilinn siglingakona ársins 2012.
Siglingamaður ársins 2012
Björn Heiðar Rúnarsson Nökkva: Björn Heiðar hefur stundað siglingar frá unga aldri. Hann hefur alla tíð verið góður siglingamaður og marg oft unnið til verðlauna í siglingingum. Hann varð Íslandmeistari á Laser árið 2012
Ævintýrabikarinn:
Markús Pétursson og fjölskylda Þyt: Markús og fjölskylda hljóta ævintýrabikarinn í ár fyrir að láta drauminn rætast og flytja um borð í skútu og sigla um heiminn. Skútan Sæúlfurin er nú stödd við eyjuna Majorku í Miðjaraðarhafinu.
Sjálfboðaliði ársins:
Óli Már Ólafsson Brokey. Ólafur hefur starfað ötulega að uppbyggingu Kænudeildar Brokeyjar. Hann hefur séð um skipulag deildararinnar undanfarin ár ásamt þjálfurum félagsins og komið á legg einni öflugust kænudeild landsins.
Strandbikar:
Kjartan Ásgeirsson Brokey. Kjartanni tókst það afrek á árinu að stranda á mastrinu. Forsaga strandsins er þó sínu alvarlegri en kjölurinn brotnaði undan bátnum við Gróttu með þeim afleiðingum að báturinn valt. Kjartan varð að hýrast á botni bátsins þar til honum var bjargað af björgunarsveitinni Ársæli.
Siglingaefni árins:
Búi Fannar Ívarsson Ými: Búi sigraði A flokk Optimist á Opnunarmót og var síðan í verðlaunasæti á öllum öðrum mótum sem hann tók þátt í. Búi er nú að skipta yfir í Laser og verður spennandi að fylgjast með þessum upprennandi siglingamanni á þeim vettvangi.