Lög SÍL
- Details
Lög Siglingasambands Íslands (SÍL)
- Skipulag
1.1 Sambandið heitir Siglingasamband Íslands skammstafað SÍL. Það er æðsti aðili innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) um alla þætti siglinga og málefnum þeim tengdum.
1.2 Heimili og varnarþing Siglingasambandsins er í Reykjavík.
1.3 Öll félög innan ÍSÍ sem leggja stund á siglingar undir seglum, árum, drekum eða vélarafli, eru aðilar að SÍL, með aðild að hlutaðeigandi héraðssambandi eða íþróttabandalagi.
1.4 Tilgangur og markmið.
Auk hefðbundinnar keppni, æfinga og þjálfunar til líkamlegrar heilsuræktar, samanber lög ÍSÍ, er það í verkahring SÍL að sinna hagsmunamálum sem tengjast siglingum svo sem á sviði fræðslu-, réttinda-, öryggis-, samgöngu-, ferða og umhverfismála.
Önnur markmið eru:
- Að hafa yfirstjórn og vinna að eflingu siglinga m.a. með fræðslu, útbreiðslu- og kynningarstarfsemi.
- Að vera málsvari siglingamanna jafnt innanlands sem erlendis.
- Að koma fram fyrir hönd siglinga gagnvart opinberum aðilum.
- Að þýða alþjóðlegar kappsiglingareglur og gefa út.
- Að setja nauðsynlegar reglur, löggilda dómara og keppnisstjóra, ráðstafa landsmótum og staðfesta met.
- Efla siglingar sem tómstunda- og almenningsíþrótt.
- Stjórnun
2.1 Siglingasambandi Íslands er stjórnað af
- a) Siglingaþingi
- b) Stjórn SÍL
2.2 Reikningar SÍL skulu endurskoðaðir ár hvert af félagslegum skoðunarmönnum reikninga sem siglingaþing kýs árlega til eins árs í senn. Félagslegir skoðunarmenn reikninga mega ekki sinna öðrum störfum fyrir SÍL sem snerta fjármál. Þeir bera ábyrgð gagnvart siglingaþingi og skulu þeir eiga greiðan aðgang að öllu bókhaldi SÍL og er stjórninni skylt að veita þeim allar nauðsynlegar upplýsingar um fjármál og reikningshald þess. Felli siglingaþing framlagða reikninga fer fram yfirskoðun eftir reglum sem þingið setur. Að þeirri yfirskoðun lokinni skal boðað til aukaþings (sbr. lið 5) sem tekur nánari ákvörðun um reikninga.
- Siglingaþing
3.1 Siglingaþing fer með æðsta vald í málefnum SÍL.
3.2 Siglingaþing sitja fulltrúar frá þeim aðilum sem mynda SÍL.
3.3 Þrír fulltrúar koma frá hverju aðildarfélagi innan hvers héraðssambands eða íþróttabandalags.
3.4 Þingið skal haldið í febrúar ár hvert. Skal þingið auglýst eða boðað til þess bréflega eða með tölvupósti með 5 vikna fyrirvara og ítrekað síðar. Stjórn SÍL ákveður fundarstað.
3.5 Tillögur um lagabreytingar og málefni sem sambandsaðilar óska eftir að tekin verði fyrir á þinginu, skal tilkynna stjórn SÍL, bréflega eða með tölvupósti minnst 3 vikum fyrir þingið.
3.6 Eigi síðar en 2 vikum fyrir siglingaþing skal senda héraðssamböndum/ íþróttabandalögum og aðildarfélögum fundarboð (síðara fundarboð) með dagskrá og upplýsingum um tillögur og mál sem leggja á fyrir þingið.
3.7. Fastanefndir SÍL starfa á milli þinga og tveim vikum fyrir Siglingaþing skal nefndarmönnum vera sendar tillögur sem liggja fyrir þinginu. Formaður nefndar kallar saman nefndina til að fara yfir tillögur og l eggja fram álit á siglingaþingi. Fundir nefndanna mega vera rafrænir og opnir fyrir áheyrendur.
3.8 Siglingaþing er lögmætt ef löglega hefur verið til þess boðað.
3.9 Á siglingaþingi hafa fulltrúar einir atkvæðisrétt, en rétt til setu á siglingaþingi með málfrelsi og tillögurétt hafa:
- stjórn SÍL
- heiðursformaður og heiðursfélagar
- fulltrúi héraðssambands/íþróttabandalags sem hefur siglingar innan sinna vébanda
- framkvæmdastjórn ÍSÍ
- fastráðnir starfsmenn SÍL og ÍSÍ
- allir nefndarmenn SÍL
- fulltrúi ráðuneytis íþróttamála auk þess getur stjórnin boðið öðrum aðilum þingsetu ef hún telur ástæðu til.
3.10 Aðeins sá sem er í félagi, sem iðkar siglingar og er innan sérráðs eða héraðssambands/ íþróttabandalags er kjörgengur fulltrúi þess á siglingaþingið.
3.11 Allir fulltrúar skulu vera tilgreindir á kjörbréfi frá viðkomandi sambandsaðila og skal kjörbréfum skilað inn til stjórnarinar eigi síðar en einni viku fyrir siglingaþing.
3.12 Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála nema annað segi í lögum þessum um tiltekin mál eða málaflokka. Enginn fulltrúi getur farið með fleiri en 3 atkvæði og þá eingöngu fyrir þann aðila sérráðs eða sambands/ bandalags sem hann er fulltrúi fyrir á þinginu.
- Dagskrá siglingaþings
4.1.1. Formaður setur þing.
- Kosning 3 manna kjörbréfanefndar
- Kjörinn þingforseti.
- Kjörnir 1. og 2. þingritari
- Ávörp gesta
- Álit kjörbréfanefndar lagt fram og samþykktar
- Lögð fram skýrsla stjórnar
- Lagður fram til samþykktar endurskoðaður rekstrar og efnahagsreikningur liðins árs af félagslega kjörnum skoðunarmönnum reikninga félagsins.
- Umræður um skýrslu stjórnar
- Umræður um og samþykkt reikninga
- Lögð fram fjárhagsáætlun fyrir næsta fjárhagsár
- Lagabreytingatillögur
- Aðrar tillögur sem kynntar voru í fundarboði
- Önnur mál: Teknar fyrir tillögur og önnur mál sem lögð hafa verið fyrir þingið
- Tillögur fjárhagsnefndar
- Kosningar
- a) Stjórn og varastjórn sbr 6 gr.
- b) Kosning fastanefnda (Breyting gerð á 48 Siglingaþingi) (Stjórn SÍL á komandi ári þurfi að finna og skilgreina hlutverk þessara nefnda sem verði lagt fyrir SÍLÞING 2022)
i) Fjárhagsnefnd 3 manna
ii) Laga- og leikreglnanefnd 3 manna
iii) Mótanefnd 3 manna - c) Tveir félagslega kjörnir skoðunarmenn reikninga (sbr. lið 2.2).
- d) Fulltrúa á íþróttaþing í samræmi við reglur ÍSÍ
- Þingslit
- Allar kosningar gilda fram að kosningu á næsta siglingaþingi. Þær skulu vera skriflegar nema aðeins sé stungið upp á jafnmörgum og kjósa skal
4.2 Þingið getur með 2/3 atkvæða viðstaddra fulltrúa heimilað að tekið sé fyrir mál sem fram kemur eftir að dagskrá þingsins hefur verið send sambandsaðilum SÍL.
4.3 Árskýrsla SÍL, sem stjórnin skal leggja fyrir þingið, svo og ágrip af fundargerðum þingsins, skal senda framkvæmdastjórn ÍSÍ og sambandsaðilum SÍL, innan tveggja mánaða frá þingslitum.
- Aukaþing
5.1 Aukaþing skal kalla saman með a.m.k. 3 vikna fyrirvara.
- a) Eftir ákvörðun siglingaþings
- b) Þegar a.m.k. ½ sambandsaðila óskar þess.
- c) Að frumkvæði stjórnar SÍL
5.2 Tillögur um málefni sem óskast tekin fyrir á aukaþingi skulu hafa borist stjórn SÍL minnst 14 dögum fyrir þingsetningu.
5.3 Eigi síðar en 6 dögum fyrir aukaþing skal senda aðilum dagskrá þingsins.
5.4 Á aukaþingi má ekki gera lagabreytingar og ekki kjósa stjórn nema bráðabirgðastjórn, ef meirihluti stjórnar hefur sagt af sér eða hætt störfum af öðrum orsökum eða stjórnin að eigin dómi orðið óstarfhæf.
5.5 Að öðru leiti gilda sömu reglur og um reglulegt siglingaþing.
- Stjórn SÍL og nefndir
6.1 Í stjórn SÍL eiga sæti.:
- a) 5 menn.
Kosning fari þannig fram;
1 formaður
4 meðstjórnendur
3 varamenn
Fái fleiri en þeir sem kjósa á jafnmörg atkvæði, skal kjósa um þá á ný bundinni kosningu. Verði þeir enn jafnir ræður hlutkesti.
- b) Stjórn kýs varaformann, ritara og gjaldkera úr sínum hópi.
- c) Varamenn taki sæti í stjórn í þeirri röð sem atkvæðamagn segir til um. Verði varamenn sjálfkjörnir taka þeir sæti í stjórninni í þeirri röð sem þeir voru tilnefndir.
- d) Ef formaður hættir á kjörtímabilinu tekur varaformaður sæti hans.
6.2 Stjórnin heldur fundi eigi sjaldnar en annanhvern mánuð. Formaður SÍL boðar stjórnarfundi og stýrir þeim.
6.3 Stjórninni er heimilt að ráða launað starfsfólk.
6.4 Aðsetur stjórnarinnar er í Reykjavík.
6.5 Nefndir kosnar á Siglingaþingi starfa fram að kosningu á næsta þingi og geta verið ráðgefandi fyrir stjórn SÍL. Fyrir þing skulu þær fara yfir þær tillögur sem l iggja fyrir þinginu og gefa álit á þeim tillögum. (bætt við á 48 Siglingaþingi)
- Starf stjórnar
7.1 Starf stjórnar SÍL er m.a.;
- a) Að framkvæma ályktanir siglingaþings
- b) Að annast rekstur sambandsins.
- c) Að vinna að eflingu siglinga.
- d) Að senda framkvæmdastjórn ÍSÍ lögboðnar skýrslur og tilkynningar.
- e) Að líta eftir því að lög og leikreglur SÍL séu haldnar.
- f) Að setja nauðsynleg bráðabirgðaákvæði.
- g) Að ráðstafa þeim styrkjum sem SÍL fær til umráða.
- h) Að koma fram erlendis fyrir hönd SÍL.
- i) Að sjá útgáfumál SÍL.
7.2 Stjórn SÍL skal gæta þess að formannafundir séu haldnir amk tvisvar á ári. Til samráðs fyrir Siglingaþing og að hausti að loknu keppnistímabili.
- Sérráð
8.1 Siglinga- og róðrarsérráðin (héraðssamböndin) eru milliliðir milli félaga sinna og stjórnar SÍL. Í samráði við hlutaðeigandi héraðssambönd skal SÍL vinna að stofnun sérráða.
8.4 Stjórn SÍL hefur frjálsan aðgang að öllum siglingamótum og sýningum sem fram fara innan vébanda SÍL. Einnig á hún rétt á að sitja aðalfundi sérráða, Dómarafélaga og héraðssambanda sem eru aðilar að sambandinu.
- Ýmis ákvæði
9.1 Merki SÍL: merki siglingasambandsins er hvítt stórsegl og ár á bláum grunni.
9.2 Heiðursformann SÍL má kjósa á siglingaþingi, ef 4/5 mættra fulltrúa samþykkja kjörið.
9.3 Heiðursformaður SÍL kemur fram fyrir hönd sambandsins, þegar stjórn þess eða formaður kunna að óska og fela honum það.
9.4 Heiðursfélaga SÍL má kjósa á siglingaþingi.
9.5 Heiðursfélagar hafa rétt til setu á siglingaþingum með málfrelsi og tillögurétt.
- Slit SÍL
10.1 Tillögur um að leggja SÍL niður má aðeins taka fyrir á lögmætu siglingaþingi. Til þess að samþykkja slíka tillögu þarf minnst ¾ hluta atkvæða.
10.2 Hafi slík tillaga verið samþykkt skal gera öllum sambandsaðilum grein fyrir henni í þinggerð og tillagan síðan látin ganga til næsta reglulegs þings. Verði tillagan þá samþykkt aftur er það fullgild ákvörðun um að leggja SÍL niður.
10.3 Ráðstöfun eigna: Sé SÍL þannig löglega slitið, skal afhenda ÍSÍ eignir SÍL til varðveislu.Þar til annað siglingasamband verður stofnað og skulu þá eignir gamla SÍL renna til þess óskertar.
10.4 Lagabreytingar: lögum þessum verður ekki breytt nema á siglingaþingi og þá aðeins með 2/3 hlutum greiddra atkvæða.
Lög þessi voru samþykkt á 40. Siglingaþingi 23. febrúar 2013,
með breytingum samþykktum á 41. Siglingaþingi 22. febrúar 2014,
með breytingum samþykktum á 45. Siglingaþingi 17. febrúar 2018.
með breytingum samþykktum á 48. Siglingaþingi 27. febrúar 2021
með breytingum samþykktum á 49. Siglingaþingi 27. mars 2022
með breytingum samþykktum á 50. Siglingaþingi 18. febrúar 2023